Glæsilegt vallarmet í golfi

05.06.2015 16:00

Kristján Þór Einarsson setti í dag glæsilegt vallarmet á Korpúlfsstaðavelli (Sjórinn / Áin) þegar hann lék á 64 höggum eða -7 á þriðja keppnisdeginum á Smáþjóðaleikunum. Kristján fékk alls sjö fugla og tapaði ekki höggi. Hann er efstur í einstaklingskeppninni á -12 samtals en íslenska sveitin er með 22 högga forskot fyrir lokahringinn á laugardag.

Haraldur Franklín Magnús er í þriðja sæti í einstaklingskeppninni á -2 samtals en hann lék á pari vallar í dag, eða 71 höggi. Sandro Piaget frá Mónakó er annar á -2 en hann lék á 66 höggum í dag.

Andri Þór Björnsson er jafn Esteve frá Andorra í 4. sæti á +2 samtals.

Á 13. holu var Kristján Þór kominn með þrjá fugla. Hann fékk síðan fjóra fugla í röð á 13., 14. 15. og 16. holu.

 

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék á 70 höggum eða -1 í dag líkt og Sophie Sandolo frá Mónakó. Guðrún er efst í einstaklingskeppninni á -6 samtals (69-71-70) en Ísland er með 29 högga forskot í liðakeppninni.

Sandolo er önnur í einstaklingskeppninni á pari vallar samtals (73-73-70) en þar á eftir koma íslensku keppendurnir Karen Guðnadóttir á +9 í þriðja sæti (77-73-75) og Sunna Víðisdóttir á +12 (74-78-76) í fjórða sæti.

Þetta er í fyrsta sinn sem keppt er í golfi á Smáþjóðaleikunum og Ísland er í kjörstöðu til þess að tryggja sér sigur í karla - og kvennaflokki í liðakeppninni á morgun.

Myndir með frétt

Til baka