Íslenska kvennasveitin náði silfrinu

06.06.2015 17:56
Íslensku sveitirnar hlutu báðar verðlaun í júdókeppni Smáþjóðaleikanna sem lauk í dag. Lúxemborg vann bæði karla- og kvennaflokk.

Ellefu sveitir voru skráðar til leiks þar af voru 6 í karlaflokki og 5 í kvennaflokki. Sveit Íslands í karlaflokki var skipuð Janusz Komendera, Hermanni Unnarssyni og Ægi Valssyni. Varamenn voru Sveinbjörn Iura og Dofri Bragason. 

Sveitin tapaði með þrem vinningum gegn einum á móti Lúxemborg en vann Andorra 2-1 sem dugði í bronsviðureign á móti Möltu. Í henni sigruðu Íslendingar 2-1. 

Í úrslitum mættust Lúxemborg og Mónakó þar sem Lúxemborg vann 2-1.

Sveit Íslands í kvennaflokki var skipuð Hjördísi Ólafsdóttur og Önnu Soffíu Víkingsdóttur og til vara var Ingunn Sigurðardóttir. 

Íslenska kvennasveitin átti engan keppanda í léttasta flokkum og því þurftu þær báðar að vinna sínar glímur til að vinna sveitir andstæðingana. Þær Anna Soffía og Hjördís voru greinilega í stuði í dag og komust alla leið í úrslit þar sem þær mættu Lúxemborg. 

Þær Hjördís og Anna Soffía áttu báðar hörku viðureignir þar sem allt gat gerst fram á síðustu sekúndu en það datt ekki með þeim í úrslitunum þar sem feikisterkt lið Lúxemborgar vann 3-0.
Til baka