Ísland sat eftir í strandblakskeppni karla

04.06.2015 19:33
Íslenska karlalandsliðið í strandblaki er úr leik eftir 0-2 ósigur fyrir San Marínó í dag. Kvennalandsliðið er jafnt Mónakó í efsta sæti.

Riðlakeppni hjá körlunum lauk í dag. Liechtenstein vann Lúxemborg 2-0 í A-riðli og tryggði sér þar með efsta sæti riðilsins. Mónakó varð í þriðja sæti.

Í B-riðli hafði Andorra betur gegn Kýpur 2-0 og San Marínó vann Ísland 2-0. Andorra vann riðilinn með fullt hús stiga, Kýpur varð í öðru sæti og San Marínó í því þriðja.

Undanúrslitin verða leikin á morgun. Liechtenstein og Kýpur mætast klukkan eitt og klukkustund síðar hefst leikur Andorra og Lúxemborgar. Mónakó og San Marínó leika um fimmta sætið á hádegi.

Í kvennakeppninni eru Ísland og Mónakó efst og jöfn með sex stig en liðin mætast í síðasta leik keppninnar á laugardag.

Ísland vann Möltu 2-0 í dag og Mónakó vann Kýpur 2-0. Liechtenstein fylgir í humátt með fimm stig og vann Lúxemborg 2-0 í dag.
Til baka