Byrjað að skjóta úr loftskammbyssum

03.06.2015 09:08
Í dag miðvikudaginn 3. júní láta loftskammbyssuskyttur ljós sitt skína. Karlaflokkurinn hófst kl. 9:00 og þar keppa Ívar Ragnarsson og Thomas Viderö fyrir Íslands hönd. Thomas á titil að verja því hann sigraði í þessari grein á síðustu Smáþjóðaleikum sem fram fóru í Lúxemborg 2013. Spennandi verður að sjá hvernig Thomasi tekst upp við titilvörnina. 
 
Jórunn Harðardóttir, fjölhæfasta skotkona Íslendinga, keppir, ásamt Guðrúnu Hafberg, í loftskammbyssu kvenna sem hefst kl. 13:00. Jórunn náði 2. sæti í loftskammbyssu á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg 2013. 

Guðrún hélt upp á sextugs afmæli sitt í janúar á þessu ári en það segir okkur að skotíþróttir eru fyrir alla. Það kemur ekki á óvart ef Guðrún er elsti keppandinn á Smáþjóðaleikunum að þessu sinni, en það aftrar henni ekki frá því að veita keppinautum sínum mikla keppni. Spennandi verður að sjá hver úrslit í loftskammbyssu kvenna verða og hvetjum við fólk til þess að kíkja í Íþróttahús ÍFR í Hátúni í dag.

 
Til baka