Golflið frá San Marínó æfði á Korpu
Dagana 21. - 25. júní var átta manna hópur frá San Marínó staddur hér á landi til að spila golf á Korpuvelli. Ferðin er hluti af undirbúningi golfliðsins fyrir Smáþjóðaleikana 2015. Hópurinn samanstóð af framkvæmdastjórum Golfsambands San Marínó, ásamt kylfingum sem eiga möguleika á að kepa á Smáþjóðaleikunum á Íslandi 2015. Hópurinn kom til Íslands í þeim tilgangi að kynnast Korpuvellinum og æfa sig í því að spila í íslensku veðri. „Það getur verið erfitt fyrir lið sem er vant því að spila golf í 30 gráðum að spila í rigningu, 12 gráðum og vindi“, sagði framkvæmdastjóri Golfsambands San Marínó, Remo Raimondi. Hann sagði markmiðið með ferðinni það að gera kylfingum kleift að undirbúa sig fyrir leikana með því að æfa sig í þessum framandi aðstæðum. Liðið spilaði allar 27 holurnar þrisvar sinnum á þremur dögum. Allir voru sammála um að holur 1-9 og 19-27 væru afar flottar, sérstaklega holurnar sem spilast nálægt sjónum. Liðið fékk þrjá flotta daga veðurfarslega séð til að spila, með smá rigningu, en þann dag sem veðrið var slæmt fór liðið í Bláa lónið og skoðaði Geysi. Liðið var ánægt með ferðina, matinn og íslensku þjóðina.