Körfuknattleikur
Eftirfarandi þjóðir taka þátt:
KK: Andorra, Ísland, Lúxemborg, Svartfjallaland.
KVK: Ísland, Lúxemborg, Malta, Mónakó.
Í körfuknattleik keppa tvö fimm manna lið sín á milli. Markmið hvors liðs er að skora körfu hjá andstæðingnum og koma í veg fyrir að andstæðingurinn nái knettinum og skori körfu. Tvö stig eru gefin fyrir heppnað skot, þrjú stig fyrir körfu sem skoruð er utan þriggja stiga línunnar (6,75 metrum frá körfunni), og eitt stig fyrir hvert heppnað vítaskot.
Körfuknattleikur var fundinn upp árið 1891 af Dr. James Naismith, kanadískum presti í KFUM háskóla í Massachusetts í Bandaríkjunum. Hann vantaði innanhússleik til að hafa ofan af fyrir ungum mönnum yfir veturinn. Sagan segir að eftir að búið var að hafna öðrum hugmyndum, þar sem þær þóttu of ruddalegar eða henta illa inni í litlum íþróttasal, hafi hann skrifað nokkrar grunnreglur, neglt upp ferskjukörfu á vegg íþróttasalarins og fengið nemendur sína til að hefja leik í hinni nýju íþrótt.
Körfuknattleikur varð Ólympíugrein árið 1936.
Körfuknattleikur er ein vinsælasta íþróttin í Bandaríkjunum og er einnig vinsæl í öðrum heimshlutum.
Í meistaraflokki er körfuknattleik skipt í fjóra leikhluta sem eru tíu mínútur hver. Ef staðan er jöfn í lok venjulegs leiktíma er jafnan gripið til framlengingar sem stendur í fimm mínútur. Leikirnir taka þó mun lengri tíma en sem svarar þessu, þar sem klukkan er aðeins látin ganga á meðan boltinn er í leik. Hálfleikur er 15 mínútna langur og hlé á milli leikhluta stendur í tvær mínútur.
Gaman að vita
Fyrsti opinberi körfuknattleikurinn fór fram þann 20. janúar 1892.
Körfubolti naut vinsælda frá upphafi og í gegnum KFUM dreifðist íþróttin fljótt um gjörvöll Bandaríkin.
Körfuknattleikur var upphaflega leikinn með fótbolta. Þegar sérstakir boltar voru útbúnir fyrir íþróttina voru þeir upphaflega „náttúrulega“ brúnir á litinn. Það var ekki fyrr en á öndverðum sjötta áratug 20. aldar að Tony Hinkle, sem sóttist eftir bolta sem leikmenn og áhorfendur ættu auðveldara með að sjá, kynnti til sögunnar appelsínugula boltann sem nú er algengastur.