300 dagar til stefnu
Í dag eru 300 dagar þar til Smáþjóðaleikarnir verða settir á Íslandi. Leikarnir munu fara fram dagana 1. til 6. júní 2015 í Reykjavík. Að því tilefni eru tvær nýjar myndir úr myndaröðinni „Náttúrulegur kraftur“ birtar til viðbótar við þær fimm sem nú þegar hafa verið birtar, ásamt persónulegum viðtölum við íþróttafólkið á myndunum. Viðtölin má sjá hér á heimasíðunni undir „Náttúrulegur kraftur“. Einnig verður hægt að fylgjast með íþróttafólkinu í gegnum samskiptamiðlana facebook, instagram og twitter.
Myndirnar sem urðu fyrir valinu til birtingar þegar að 300 dagar eru til leika sýna Írisi Evu Einarsdóttur skotfimikonu að miða á Hvítserk og Ólaf Garðar Gunnarsson fimleikamann standandi á höndum við Fjaðrárgljúfur. Á hundrað daga fresti fram að leikum munu tvær myndir verða birtar í senn ásamt umfjöllun um íþróttafólkið. Mikil spenna ríkir fyrir myndunum, hverjir sitja fyrir og hvaða íslensku náttúrufyrirbæri ber fyrir sjónir, enda einstaklega fallegar myndir.
Fésbókarsíða leikanna er www.facebook.com/gsse2015
#GSSE2015 #Smáþjóðaleikarnir2015