Íþróttamannvirki Smáþjóðaleikanna

29.09.2014 14:15
Aðalvettvangur Smáþjóðaleikanna 2015 er Laugardalurinn, sem sumir kalla „Ólympíuþorp“ okkar Íslendinga. Átta af ellefu íþróttagreinum munu fara fram í íþróttamannvirkjum í Laugardalnum og þátttakendur munu gista á hótelum nálægt Laugardalnum. 

Keppni í blaki og körfuknattleik mun fara fram í Laugardalshöll. Laugardalshöllin var teiknuð af Gísla Halldórssyni og Skarphéðni Jóhannessyni arkitektum árið 1959 og reist af Reykjavíkurborg og Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Hún var vígð 6. desember árið 1965 en fyrsti íþróttaleikurinn sem þar fór fram var leikur úrvalsliðs Reykjavíkur í handbolta gegn Baník Karviná frá Tékkóslóvakíu 4. desember 1965.

Laugardalshöll er samtals um 20.000 fermetrar og eitt stærsta íþrótta- og tónleikahús landsins. Í höllinni eru fimm íþróttasalir: Höllin, frjálsíþróttasalur, lyftingasalur, ballettssalur og golfæfingasvæði og fjöldi ráðstefnu- og veislusala, auk sýningasvæða. Mestan hluta árs fer fram skipulögð íþróttastarfsemi á vegum Reykjavíkurborgar í höllinni, ásamt tilfallandi stórleikjum, landsleikjum og stærri íþróttaviðburðum. Höllin sjálf er um 6.500 fermetrar og hefur í gegnum tíðina hýst ýmsa stórviðburði eins og tónleika Led Zeppelin 1970, skákeinvígi Fischers og Spasskíjs 1972, Heimsmeistaramótið í handbolta 1995, Eagles tónleika árið 2011. Árið 2005 var hafist handa við að reisa 9.500 m² fjölnota sal, til frjálsíþrótta- og tónleikaaðstöðu auk ráðstefnuaðstöðu sem tengdist við Laugardalshöllina. Þessi nýi frjálsíþróttasalur er besta innanhúsaðstaða landsins en þar eru einnig haldnir stærri tónleikar og sýningar. 

Keppni í strandblaki og sundi mun fara fram í Laugardalslaug. Laugin er stærsta sundlaug Reykjavíkur. Á svæðinu er 50m innilaug en einnig 50m útilaug, barnalaug utanhúss og diskurinn, tvær rennibrautir, fjölmargir heitir pottar, gufubað, æfingaaðstaða og mini-golf.  

Keppni í frjálsíþróttum mun fara fram á Laugardalsvelli. Laugardalsvöllur er 105 x 68 metrar með fullkomna átta brauta frjálsíþróttaaðstöðu. Áhorfendastúkur voru byggðar 1958 og 1997, en eldri stúkan gerð upp 2006. Þær taka 9800 manns og stæði taka 5200 manns. Mesti áhorfendafjöldi á íþróttaleik var árið 2004 á leik Íslands og Ítalíu þegar að 20.204 manns mættu. Ísland vann 2:0. Um 25.000 manns voru á tónleikum á Laugardalsvelli árið 2007.

Keppni í fimleikum og júdó mun fara fram í Íþróttamiðstöð Ármanns/Laugabóli. 

Keppni í borðtennis mun fara fram í TBR-húsunum við Gnoðarvog 1. TBR var stofnað árið 1938. Félagið á tvö íþróttahús, einkum ætluð fyrir badminton. Í húsunum eru samtal 17 badmintonvellir. Borðtennisdeild Víkings hefur aðstöðu í TBR-húsum. Flest borðtennismót á landinu eru haldin í TBR.

Hægt er að lesa sér meira til um íþróttagreinarnar sem keppt er í og staðsetningar hér

 

 

 

Til baka