Silja Úlfarsdóttir hlaupadrottning

13.04.2015 15:04

Silja Úlfarsdóttir - Frjálsíþróttir

         Fæðingardagur: 23/06/1981         Hæð: 174         Aldur: 33


Helstu afrek ferilsins

Á ferlinum vann ég marga titla á ýmsum mótum, eins og Smáþjóðaleikum, Norðurlandamótum og Evrópubikar. Ég keppti líka um alla Evrópu og kynntist mikið af skemmtilegum afreksmönnum. Ég náði lágmörkum á EM inni og úti, en háskólinn minn hleypti mér ekki á EM inni. Rétt fyrir EM utanhúss þá handabrotnaði ég og reif læri. Draumurinn minn var alltaf að komast á Ólympíuleika, en ég var .12 úr sekúndu frá lágmarki.

 

 

Upphaf íþróttaferilsins:

Ég var í handbolta og fótbolta þegar ég var yngri, en vann Skólaþríþraut á vegum Frjálsíþróttasambandsins þegar ég var í 8. bekk. Í kjölfarið fór ég út að keppa og setti Íslandsmet, sem var mjög gaman. Tveimur árum síðar varð ég í þriðja sæti á Norðurlandamóti Unglinga í 400m og ákvað þá að hætta í handbolta og einbeita mér að því að verða fljótasta kona Íslands.

 

 

 

Hvernig er lífið eftir ferilinn?

Ég á tvo litla stráka sem eru að verða fjögurra og sex ára og lífið snýst mikið í kringum þá. Ég vil auðvitað miðla reynslu minni og hef því einbeitt mér að því að þjálfa afreksmenn í flestum íþróttagreinum, þar sem ég aðstoða við hlaupa- og styrktarþjálfun. Núna er ég að þjálfa nokkra meistaraflokka í hand- og fótbolta og finnst það mjög gaman. Í byrjun árs hóf ég störf hjá Adidas og finnst ég einstaklega heppin að geta samtvinnað mín helstu áhugamál, íþróttir, íþróttamenn og adidasfatnað.


Hver er þín reynsla af Smáþjóðaleikum?

Ég keppti á mínum fyrstu Smáþjóðaleikum hér á Íslandi 1997, þá hljóp ég fyrsta sprett í 4x100m hlaupi. Ég hljóp með Guðrúnu Arnardóttur og við fengum gull. Mér fannst jafn merkilegt að fá gull og að fá þann heiður að hlaupa með henni. Tveimur árum síðar vann ég þrjú gull á Smáþjóðaleikunum og það var yndislegur tími.


Ætlar þú að fylgjast með leikunum? 

Ég er mjög spennt fyrir Smáþjóðaleikunum og gaman að þeir séu haldnir hér heima. Ég hvet alla til að sýna stuðning, mæta á viðburðina og hvetja okkar frábæra íþróttafólk.

 

Myndir með frétt

Til baka