Blak: Íslenskur sigur fyrir fullu húsi
Fyrstu tvær hrinurnar þróuðust svipað. Íslenska liðið lenti undir í byrjun en snéri leiknum sér í vil. Fyrsta hrinan vannst 22-25 og önnur hrinan 20-25.
Í þriðju hrinunni hafði íslenska liðið yfirburði en lenti í vandræðum með að skora síðasta stigið. Liðið komst í 16-24 og töldu margir formsatriði að ljúka leiknum en Liechtenstein skoraði þá fimm stig í röð og breytti stöðunni í 21-24.
Fyrirliðanum Jónu Guðlaugu Vigfúsdóttur var þá skipt inn á og í síðustu tveimur sóknum sínum spilaði íslenska liðið upp á hana. Seinni sóknin skilaði árangri hún gerði út um leikinn með firnaföstu smassi.
Troðfullt var í höllinni þar sem sæti eru fyrir 420 áhorfendur og mikil stemming en frjálsíþróttahöllinni í Laugardal hefur verið breytt í glæsilegan blakleikvang.
Í fyrri leik dagsins sigraði Svartfjallaland San Marínó 3-0.