Fyrsti dagur fimleikakeppni lokið

02.06.2015 20:00

Fyrsta degi fimleikakeppninnar er lokið. Keppni í fimleikum fer einnig fram á morgun og hefst kl.16:00 og stendur til kl. 20:00. 

Íslensku stelpurnar unnu liðakeppnina örugglega og vörðu þar með titilinn frá því í Lúxemborg fyrir tveimur árum. Dominiqua Alma Belányi, landsliðskona í fimleikum, stóð einnig uppi sem sigurvegari í fjölþraut kvenna. Dominiqua vann einnig árið 2013 og er þar með fyrst kvenna til að verja Smáþjóðaleikatitilinn í greininni. Önnur í fjölþraut varð Thelma Hermannsdóttir en Ísland tefldi einungis fram tveimur keppendum í fjölþraut kvenna og því kvennaliðið með fullt hús stiga í dag.

Einungis tvær þjóðir tóku þátt í liðakeppninni í karlaflokki og hafnaði ungt og efnilegt lið Íslands í öðru sæti á eftir gríðarsterku og reynslumiklu liði Kýpur. Valgarð Reinhardsson átti í harðri baráttu um verðlaun í fjölþraut karla og fór svo að hann hafnaði í 3. sæti á eftir Kýpverjunum Marios Georgiou og Michalis Krasias.

Ísland er með tvo keppendur í úrslitum á öllum áhöldum á morgun og allir liðsmenn íslenska liðsins tryggðu sér þátttökurétt í úrslitum á minnst einu áhaldi.

Úrslitin í dag ráða því hverjir keppa í úrslitum á morgun en átta bestu keppendurnir í hverri grein komast í úrslitin. Yfirburðir Íslands í kvennakeppninni í dag voru töluverðir en þar sem einungis tveir keppendur frá hverri þátttökuþjóð mega taka þátt í úrslitum verða aðeins tvær íslenskar stúlkur í úrslitum á hverju áhaldi á morgun.

Hjá körlunum er Ísland einnig með tvo keppendur í úrslitum á hverju áhaldi og því verður nóg að gera hjá íslensku fimleikafólki á morgun.

Í kvennaflokki komust eftirtaldir keppendur Íslands í úrslit:

Á gólfi kvenna: Sigríður Bergþórsdóttir og Thelma Hermannsdóttir

Á slá: Thelma Hermannsdóttir og Norma Róbertsdóttir

Á tvíslá: Dominiqua Alma Belányi og Tinna Óðinsdóttir

Á stökki: Sigríður Bergþórsdóttir og Norma Róbertsdóttir


Í karlaflokki komust eftirtaldir keppendur Íslands í úrslit:

Á gólfi: Valgarð Reinhardsson og Bjarki Ásgeirsson

Á bogahesti: Valgarð Reinhardsson og Hrannar Jónsson

Á hringjum: Ólafur Gunnarsson og Bjarki Ásgeirsson

Á stökki: Valgarð Reinhardsson og Eyþór Baldursson

Á tvíslá: Ólafur Gunnarsson og Valgarð Reinhardsson

Á svifrá: Ólafur Gunnarsson og Valgarð Reinhardsson


Nánari úrslit kvennaflokki 

Nánari úrslit í karlaflokki

Úrslitin á einstökum áhöldum hefjast klukkan 16:00.

Nánari upplýsingar gefur Kristín H. Hálfdánardóttir, fjölmiðlafulltrúi fimleikanna, í síma 892-6478.


Myndir með frétt

Til baka