Hafdís vann langstökkið og varð önnur í 100 metra hlaupi

02.06.2015 20:35
Hafdís stökk 6,50 metra en Rebecca Camilleri frá Möltu varð önnur með stökki upp á 6,15 metra og Ljiljana Matovice frá Svartfjallalandi þriðja með stökki upp á 5,60.

Sætaskipti urðu á milli Íslands og Möltu í 100 metra hlaupinu. Charlotte Wingfield kom þar fyrst í mark á 10,64 sekúndum en Hafdís varð önnur á 11,87. Dimitra Kyriakdou frá Kýpur varð þriðja á 12,04.

Ari Bragi Kárason varð þriðji í 100 metra hlaupi karla eftir æsilega keppni. Panagiotis Iounnaou frá Kýpur varð fyrstur á 10,64 en keppendur biðu síðan nokkra stund á meðan dómarar fóru yfir ljósmyndir og skáru úr um önnur verðlaunasæti.

Niðurstaða þeirra var að Christos Chatziangelidis frá Kýpur hefði verið annar á 10,75, Ari Bragi þriðji á 10,76, tveimur hundraðshlutum á undan næsta keppanda.

Þar með lauk frjálsíþróttakeppni dagsins en Íslendingar hafa átt ágætu gengi að fagna á Laugadalsvelli í dag. Óðinn Björn Þorsteinsson varð annar í kúluvarpi með kast upp á 18,10 metra og Stefán Velemir þriðji en hann varpaði kúlunni 17,53 metra.

Kristinn Þór Kristinsson varð þriðji í 800 metra hlaupi á tímanum 1:58,94 og Krister Blær Jónsson annar í stangarstökki en hann fór yfir 5,05 metra. Keppni í stangarstökkinu var færð inn í Kaplakrika þar sem of mikill hliðarvindur var í Laugadalnum.

Myndir með frétt

Til baka