Keppni í blaki
Smáþjóðaleikarnir eru komnir á fullt skrið og hefst keppni í blaki kl: 18:00 með leik San Marínó og Svartfjallalands í kvennaflokki. Íslenska landsliðið á leik gegn Liechtenstein kl. 20:30. Leikið er í Laugardalshöllinni.
Í ár eru fimm þjóðir skráðar til keppni í kvennaflokki en auk Íslands eru Liechtenstein, San Marínó, Svartfjallaland og Lúxemborg.
Íslenska kvennalandsliðið hefur tvisvar sinnum komist á pall á Smáþjóðaleikunum. Fyrst árið 1997 þegar leikarnir voru haldnir á Íslandi, en þá náðu þær öðru sæti og aftur árið 2009 í Kýpur þar sem þær fengu brons.
Karlarnir spila í fjögurra liða móti en auk Íslands eru Lúxemborg, San Marínó og Mónakó. Íslenska karlaliðið á leik á morgun miðvikudag kl. 20:30 á móti Mónakó. Líkt og konurnar þá hefur karlalandsliðið tvisvar sinnum komist á pall á Smáþjóðaleikunum og fengið brons í bæði skiptin. Fyrst í Liechtenstein árið 1999 og aftur tíu árum síðar þegar leikarnir voru haldnir í Kýpur.
Kýpur er lang sigursælasta þjóðin í blaki, en kvennaliðið hjá þeim hefur hreppt gullið átta sinnum og karlarnir 11 sinnum.