Keppni í frjálsíþróttum
Keppni í frjálsíþróttum hófst í dag kl. 16:00. Veðurguðirnir voru ekki með keppendum í dag, en keppni í stangarstökki var færð inn í Frjálsíþróttahöllina í Hafnarfirði vegna slæms veðurs.
Þau gleðitíðindi bárust að Ásdís Hjálmsdóttir sigraði í spjótkasti kvenna með kasti upp á 58,85 metra í fjórðu umferð og Hlynur Andrésson í 5000 metra hlaupi karla. Aníta Hinriksdóttir varð önnur í 800 metra hlaupi.
Inga Stasiulionyte frá Svartfjallalandi varð önnur með kasti upp á 46,4 metra og María Rún Gunnlaugsdóttir þriðja en hún kastaði 42,3 mertra.
Charline Mathias frá Lúxemborg kom fyrst í mark í 800 metra hlaupi kvenna á tímanum 2:08,61. Aníta Hinriksdóttir varð önnur á tímanum 2:09,10 og Natalia Evangelidou frá Kýpur þriðja á 2:09,56.
Í 5000 metra hlaupi karla sigraði Hlynur Andrésson á tímanum 14:45,94. Marcos Sanza Arranz frá Andorra kom næstur í mark á tímanum 14:48,34 og Pol Mellina frá Lúxemborg varð þriðji á 15:15,52.
Deginum lýkur á úrslitum í 100 metra hlaupi en undanrásir voru í dag. Kvennahlaupið hefst klukkan 19:30 en þar eru Hafdís Sigurðardóttir og Arna Stefanía Guðmundsdóttir meðal keppenda.
Karlahlaupið hefst tíu mínútum síðar og þar hlaupa Juan Ramos Borges Bosque og Ari Bragi Kárason.