Evrópubikarinn til sýnis í Laugardalshöll
Evrópubikar í körfuknattleik er til sýnis í Laugardalshöll á meðan á Smáþjóðaleikunum stendur. Ísland er þriðji viðkomustaður Evrópubikarins í sumar, en hann er á ferðalagi um álfuna. Evrópubikarinn verður afhentur sigurvegara Eurobasket í haust. Að því tilefni var haldinn blaðamannafundur í Laugardalshöllinni í dag. Bikarinn var til sýnis fyrir fjölmiðlafólk, en ásamt bikarnum er hér á landi lukkudýr leikanna, Frenkie the Fireball.
Hannes Jónsson, formaður KKÍ, fór yfir stöðuna á undirbúningi KKÍ og körfuknattleikslandsliðsins fyrir Evrópukeppnina og er fyrsti áfanginn í því ferli í gangi núna, en það eru Smáþjóðaleikarnir. Ásamt Hannesi tóku til máls þeir Illugi Gunnarsson, ráðherra íþróttamála, og Kolbeinn Pálsson, fyrrverandi formaður KKÍ.
Bikarinn mun heimsækja allar þátttökuþjóðirnir á Evrópumótinu og eftir að hafa verið í Lettlandi og Eistlandi er hann kominn til Íslands.
Bikarinn verður til sýnis í Höllinni í dag frá 17-21 og á morgun fimmtudag frá 15-21. Gefst almenningi þá kostur á að sjá gripinn og mynda sig með honum sem og lukkudýri mótsins Frenkie the Fireball.
Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleika, og Frenkie the Fireball hafa mælt sér mót í Laugardalshöllinni um kl.18 í dag. Allir geta fengið mynd af sér með þessum flottu lukkudýrum.
Um bikarinn: The Nikolai Semashko Throphy
Bikarinn ef nefndur eftir Nikolai Semashko (1907 - 1976), sem var frá Sovétríkjunum, en hann var íþróttamálaráðherra Sovétríkjanna sálugu og varaformaður og formaður FIBA Europe á árunum 1960 til 1976.
Núverandi bikar er önnur útgáfan af Evrópubikarnum sem var notuð til ársins 1993, en það var þýski gullsmiðurinn Gunter Schoebel sem bjó til arftakan árið 1995.
Bikarinn er 23 cm há skál sem er 35 cm í þvermál efst. Hann er búinn til úr gulli og silfri skreyttur 24 eðalsteinum, jafnmörgum fjöldi liða á mótinu, og stendur á gegnheillri marmaraplötu. Bikarinn vegur svo alls 18 kg.
Frá árinu 1995 hafa hetjur eins og Vlade Divac, Aleksander Djordjevic, Dejan Bodiroga, Sarunas Jasikevicius, Theodoros Papaloukas, Andrei Kirilenko, Juan Carlos Navarro, Pau Gasol og Tony Parker meðal annars lyft bikarnum á loft sem Evrópumeistarar.
Mynd af fundinum: Frá vinstri: Frenkie the Fireball, Guðbjörg Norðfjörð varaformaður KKÍ, Páll Kolbeinsson formaður afreksnefndar, Einar Bollason heiðurskrosshafi KKÍ, Hannes S. Jónsson formaður KKÍ fremst, Hlynur Bæringsson fyrirliði karlalandsliðsins, Logi Gunnarsson leikmaður karlalandsliðsins, Kolbeinn Pálsson heiðurskrosshafi KKÍ og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherrra.