Lúxemborgarar fögnuðu eftir háspennu leik

03.06.2015 23:30

Íslenska karlalandsliðið í blaki keppti sinn fyrsta leik á Smáþjóðaleikunum nú rétt í þessu á móti Lúxemborg. Bæði lið komu ákveðin til leiks og var jafnt á flestum tölum, en undir lokinn skreið íslenska liðið fram úr og vann hrinuna 25-23. Lúxemborg byrjaði aðra hrinu vel og komst yfir 6-2. Þá fór nýliðinn Ævarr Freyr Birgisson í uppgjöf og náði með góðri pressu að minnka muninn í 5-6. Mikið jafnræði var með liðunum út hrinuna sem endaði með sigri Lúxemborgar 25-22.

Í þriðju hrinu sváfu Íslendingar á verðinum og liðið frá Lúxemborg hafði yfirhöndina allan tímann og vann hrinuna 25-18. Fjórða hrina var jöfn og spennandi framan af en Íslendingar náðu yfirhöndinni um miðja hrinu. Eldurinn brann enn í íslenska liðinu sem hafði góð tök og vann 25-19. Þar með tryggði íslenska liðið sér oddahrinu.

Oddahrinan var gríðarlega spennandi. Íslendingar voru 8-6 yfir þegar skipt var um vallarhelming. Lið Lúxemborgar setti í næsta gír og komst í 14-11. Með góðri baráttu íslenska liðsins náðu þeir sér í tvö stig til viðbótar en Lúxemborg vann hrinuna 15-13, og þar með leikinn 3-2.

Fyrirfram var búist við afar jöfnum leik og sú varð raunin. Uppgjafir íslenska liðsins virtust lakari og því þurfti liðið að hafa meira fyrir stigunum heldur en mótherjarnir.

Þjálfari Lúxemborgar stökk þrístökk og leikmenn hans föðmuðust innilega eftir þennan æsilega endasprett Lúxemborgar. Samkvæmt auglýstri dagskrá átti leikurinn að klárast klukkan hálf ellefu en hún var komin nær hálf tólf þegar síðasta stigið var skorað.

Þessum leik svipar mjög til leiks sem þessar þjóðir spiluðu fyrir ári síðan og endaði einnig í 5 hrinum og með sigri Lúxemborgar. Stigahæsti leikmaður Lúxemborgar, var Kamil Rychlicki sem skoraði 25 stig í leiknum og gerði Íslendingum lífið leitt. Stigahæstu leikmenn íslenska liðsins voru Kristján Valdimarsson með 16 stig, Theódór Óskar Þorvaldsson með 13 og Ævarr Freyr Birgisson sem var að spila sinn fimmta landsleik, var með 8 stig. 

Forsvarsmenn Blaksambands Íslands leyfðu sér samt að vera glaðir þrátt fyrir tapið. Íslensku liðin hafa leikið ljómandi vel og kvennaliðið unnið sína fyrstu tvo leiki.

Aðsóknin hefur sérstaklega farið fram úr þeirra björtustu vonum. Sætum var bætt við fyrir leikinn í kvöld og því má reikna með að á sjötta hundrað manns hafi mætt til að styðja íslenska liðið.

 

Til baka