Sögulegur sigur Íslands á Kýpur
Íslenska kvennalandsliðið í strandblaki, skipað þeim Berglindi Jónsdóttur og Elísabetu Einarsdóttur, vann í dag sögulegan sigur á Kýpur í strandblakskeppni kvenna á Smáþjóðaleikunum.
Kýpur, sem hefur staðið uppi sem sigurvegari síðastliðna þrjá leika, barðist hetjulega en það dugði ekki til og Ísland vann leikinn 2-0, 21-17 og 22-20.
Íslenska liðið er því í góðri stöðu eftir fyrstu tvo keppnisdagana. Berglind og Elísabet eru efstar með 4 stig eins og Mónakó og hafa þegar leikið við liðin í 3. og 4. sæti.
Það stefnir því í gríðarlega spennandi strandblakskeppni sem gæti allt eins endað með úrslitaleik Íslands og Mónakó á laugardag kl.13:00.
Mikil batamerki voru á leik karlalandsliðsins í dag en þeir mættu einnig Kýpur. Þrátt fyrir að tapa 2-0 líkt og í gær þá léku Orri Þór Jónsson og Einar Sigurðsson betur en í gær, bæði í vörn og sókn.
Á morgun leika þær Berglind og Elísabet gegn Möltu klukkan 17:30 en karlarnir mæta San Marínó klukkan 16:30. Með sigri geta Orri og Einar komist upp fyrir San Marínó í riðlinum og þar með leikið um 5. sætið á leikunum.
Önnur úrslit voru þau að Lúxemborg vann Mónakó 2-0 í karlakeppninni en í kvennakeppninni var það öfugt og Mónakó vann 2-0. Mónakó og Lúxemborg mæta bæði með breytt kvennalið frá því á síðustu leikum en þar hafnaði Lúxemborg í 2. sæti og Mónakó í 5. sæti. Lúxemborg náði sér ekki á strik í fyrri hrinunni. Mónakó gekk á lagið og vann hrinuna 14-21. Síðari hrinan var jafnari og lauk með 19-21 sigri Mónakó sem litu vel út, sérstaklega varnarlega.
San Marínó eru enn án stiga í karlakeppninni líkt og Ísland eftir 2-0 tap, 21-8 og 21-9 gegn Andorra í dag og Liechtenstein vann Möltu 2-0 í kvennakeppninni.
Leikir morgundagsins eru sem hér segir:
Karlar A LIE-LUX 12:00
Karlar B CYP-AND 13:00
Konur LUX-LIE 14:00
Karlar B ISL-SMR 16:30
Konur CYP-MON 15:30
Konur ISL-MLT 17:30
Úrslit og staða í mótinu
Nánari fréttir og upplýsingar um leiki og leiktíma má sjá á heimasíðu strandblaksins.
Einnig má hafa samband við fjölmiðlafulltrúa strandblaksins, Lilju Jónsdóttur í síma 695-1710 og Kristínu H. Hálfdánardóttur í síma 892-6478.