Berglind og Elísabet nálgast gullverðlaunin

04.06.2015 19:36

Gengi íslensku liðanna á strandblaksvellinum í dag var með svipuðu móti og undanfarna daga. Einar og Orri töpuðu fyrir San Marínó, 2-0. Þeir eru því úr leik á mótinu en San Marínó leikur um 5. sætið á morgun.
Elísabet Jónsdóttir og Berglind Einarsdóttir tóku á móti Möltu og unnu öruggan 2-0 sigur, 21-10 og 21-10.

Stelpurnar léku af mikilli yfirvegun, spiluðu skynsamlega og gerðu fá mistök og sigur þeirra var í kortunum frá upphafi. Þær hafa nú unnið alla leiki sína og spilist morgundagurinn eins og tölfræðin segir til um mun leikur Íslands og Mónakó á laugardag kl. 13:00 verða hreinn úrslitaleikur um gullverðlaunin.

Kvennalið Kýpur, meistarar síðustu þriggja Smáþjóðaleika, tapaði 2-0 fyrir Mónakó í dag og sá aldrei til sólar í leiknum og það ekki vegna veðurfars. Allur vindur virtist úr kýpversku stelpunum eftir að hafa tapað 2-0 fyrir Íslandi í gær og veittu þær mónakóska liðinu litla mótspyrnu.

Liechtenstein og Kýpur eiga þó í harðri samkeppni um þriðja sætið. Liechtenstein er í þriðja sætinu með 5 stig eftir 2-0 sigur á Lúxemborg í dag en Kýpur er í því fjórða með 4 stig.
Hjá körlunum tryggði Liechtenstein sér efsta sætið í A-riðli með 2-0 sigri á Lúxemborg, 21-11 og 21-14 og Andorra endaði í efsta sæti B-riðils með 2-0 sigri á Kýpur, 21-14 og 21-18.

Leikir morgundagsins verða því sem hér segir:

Karlar, 5. sæti MON-SMR 12:00
Karlar, undanúrslit LIE-CYP 13:00
Karlar, undanúrslit AND-LUX 14:00
Konur MLT-CYP 15:30
Konur MON-LIE 16:30
Konur ISL-LUX 17:30



Til baka