Hrafnhildur bætti Íslandsmetið um 6,5 sekúndur
Hrafnhildur Lúthersdóttir kom fyrst í mark í 400 metra fjórsundi kvenna í dag og stórbætti Íslandsmetið um 6,54 sekúndur. Alls voru fjögur mótsmet sett í sundlauginni í dag.
Hrafnhildur synti á 4:53,24 mín og bætti bæði Íslands- og mótsmet Jóhönnu Gerðu Gústafsdóttur sem var 4:54,57. Jóhanna Gerða varð önnur í sundinu í dag og bætti sinn árangur um rúma sekúndu, synti á 4:53,56. Julia Hassler frá Liechtenstein varð þriðja á 5:02,37 sek.
Julia tók sig hins vegar til og vann 800 metra skriðsund kvenna á 8:42,06. Þar með bætti hún mótsmetið, sem hún átti sjálf, um rúmar þrjár sekúndur. Inga Elín Cryer varð þriðja í sundinu á 9:03,66.
Sveit Íslands í 4x100 metra skriðsundi kvenna bætti Íslandsmetið um 12/1000 úr sekúndu og syntu á 3:47,27. Um leið bættu þær mótsmetið um 2,5 sekúndur.
Bryndís Rún Hansen fór mikinn á fyrsta spretti og synti hann á 55,98 sekúndum og varð þar með önnur íslenska konan sem syndir á undir 56 sekúndum. Aðrar í sveitinni voru Eygló Ósk Gústafsdóttir, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir.
Í 400 metra fjórsundi karla sigraði Raphael Stracctiotti frá Lúxemborg á nýju mótsmeti, 4:24,02 og bætti mótsmet Antons Sveins McKee um rúmar þrjár sekúndur.
Síðasta mótsmet dagsins átti sveit Lúxemborgar í 4x100 metra skriðsundi karla. Sveitin synti á 3:24,18 mín en gamla metið var 3:24,75.
Keppni í sundi er þar með lokið og óhætt er að segja að íslenska liðinu hafi vegnað vel. Alls hafa unnist 10 gullverðlaun, 13 silfurverðlaun og 11 bronsverðlaun, samtals 34 verðlaun.