Sjálfboðaliðar eru ómissandi

05.06.2015 14:30

Sjálfboðaliðar tryggja að allt gangi snuðurlaust fyrir sig og allir njóti leikanna.

Aðspurður segir verkefnastjóri sjálfboðaliða að svarið við því hver sjálfboðaliðinn sé og í hverju starf hans felist, að það sé einfalt. 

Sjálfboðaliðinn ert þú og ég, hann og hún. Við mætum með bros á vör á morgnana og brosum út daginn. Við sköpum létt og jákvætt andrúmsloft á leikunum svo að öllum finnist þeir vera velkomnir og njóti leikanna. Við erum þeim kostum gædd að geta allt þegar við tökum verkefni að okkur. Við vinnum við aðgangsstýringu og gætum þess að óviðkomandi fari ekki þar sem á ekki að fara. Við bjóðum gestum góðan daginn á þjónustuborði leikanna og björgum hinum ýmsu málum, veitum gestum og þátttakendum upplýsingar og reynum að koma til móts við óskir þeirra. Við keyrum þátttakendurna milli staða og pössum vel upp á að enginn keppandi mæti seint.

Við sjálboðaliðarnir erum einnig til staðar fyrir aðra sjálfboðaliða. Við sjáum til þess að enginn sé svangur eða þyrstur, því erfitt getur reynst að vinna gott verk á tóman maga. Við hlaupum strax til ef einhvern af okkur vantar aðstoð óháð stað og stund. Mörg hver okkar vinna lengur en þeir eru beðnir um, en það er ekki endilega sjálfsagt. Við njótum starfsins og vonum að þátttakendur og aðrir gestir taki góðar minningar með sér heim eftir dvölina á Íslandi.


Myndir með frétt

Til baka