Íslensku liðin í eldlínunni eftir hádegi

06.06.2015 13:04
Íslensku kvennalandsliðin í strandblaki og körfuknattleik auk karlalandsliðsins í körfu leika hreina úrslitaleiki um gullverðlaun á lokadegi Smáþjóðaleikanna.

Strandblakliðið mætir Mónakó klukkan 13:00. Íslenska liðið hefur eins stigs forustu á toppnum fyrir leikinn en lítið má út af bregða því Kýpur og Liechtenstein náði íslenska liðinu að stigum í morgun.

Klukkan 13:30 verður flautað til leiks Íslands og Lúxemborgar í körfuknattleik kvenna. Liðin eru jöfn með fjögur stig og ósigruð.

Karlalandsliðið mætir Svartfjallalandi í leik sem hefst klukkan 16:00. Þar er sömu sögu að segja, liðin efst og jöfn með fjögur stig úr tveimur leikjum.

Körfuknattleiksleikirnir verða í beinni útsendingu RÚV.

Um miðjan dag lýkur keppni í golfi en þar hafa íslenskir keppendur haft örugga forustu frá fyrsta degi. Þá er vert að minnast á að liðakeppni fer fram í júdó í dag og klukkan 14:00 hefst keppni á frjálsíþróttavellinum. 

Kári Steinn Karlsson er þar meðal keppenda í 10 km hlaupi, Kolbeinn Höður Gunnarsson í 200 metra hlaupi og Hafdís Sigurðardóttir þykir líkleg til afreka í bæði 200 metra hlaupi og þrístökki. Frjálsíþróttakeppninni lýkur á 4x100 metra boðhlaupi.
Til baka