Keppni í frjálsíþróttum

02.06.2015 18:50

Keppni í frjálsíþróttum hófst í dag kl. 16:00. Veðurguðirnir voru ekki með keppendum í dag, en keppni í stangarstökki var færð inn í Frjálsíþróttahöllina í Hafnarfirði vegna slæms veðurs.

Þau gleðitíðindi bárust að Ásdís Hjálmsdóttir sigraði í spjótkasti kvenna með kasti upp á 58,85 metra í fjórðu umferð og Hlynur Andrésson í 5000 metra hlaupi karla. Aníta Hinriksdóttir varð önnur í 800 metra hlaupi.

Inga Stasiulionyte frá Svartfjallalandi varð önnur með kasti upp á 46,4 metra og María Rún Gunnlaugsdóttir þriðja en hún kastaði 42,3 mertra.

Charline Mathias frá Lúxemborg kom fyrst í mark í 800 metra hlaupi kvenna á tímanum 2:08,61. Aníta Hinriksdóttir varð önnur á tímanum 2:09,10 og Natalia Evangelidou frá Kýpur þriðja á 2:09,56.

Í 5000 metra hlaupi karla sigraði Hlynur Andrésson á tímanum 14:45,94. Marcos Sanza Arranz frá Andorra kom næstur í mark á tímanum 14:48,34 og Pol Mellina frá Lúxemborg varð þriðji á 15:15,52.

Deginum lýkur á úrslitum í 100 metra hlaupi en undanrásir voru í dag. Kvennahlaupið hefst klukkan 19:30 en þar eru Hafdís Sigurðardóttir og Arna Stefanía Guðmundsdóttir meðal keppenda.

Karlahlaupið hefst tíu mínútum síðar og þar hlaupa Juan Ramos Borges Bosque og Ari Bragi Kárason.

 

Myndir með frétt

Til baka