Fyrsta keppnisdegi Smáþjóðaleika lokið

02.06.2015 22:39

Fyrsti keppnisdagur Smáþjóðaleika er nú að kvöldi kominn og margt athyglisvert sem gerðist í dag.

Skotíþróttadrottningin Íris Eva Einarsdóttir vann til gullverðlauna í loftriffli kvenna og náði þar með að tryggja sér fyrstu verðlaun Íslendings á Smáþjóðaleikunum 2015. Carole Calmes frá Lúxemborg hafnaði í öðru sæti. Íris Eva náði 200,1 stigi í lokakeppninni, en Calmes 196,7. Marilena Constantinou frá Kýpur varð í þriðja sæti með 176,8 stig.

Marc-Andre Reinhard Kessler frá Lictenstein sigraði eftir harða keppni við landa sinn Michael Mattle í lokakeppninni. Kesler skoraði 198,8 stig en Mattle 197,9 Í þriðja sæti varð William Vella frá Möltu með 174.2 stig. Theodór Kjartansson, frá Skotdeild Keflavíkur, stóð sig mjög vel í lokakeppninni og náði 5. sæti.

Önnur úrslit frá skotíþróttakeppninni má sjá hér.


Í sundi var það helst að Hrafnhildur Lúthersdóttir náði A lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Ríó í 200 m fjórsundi á 2:13,83 mín. Einnig setti hún Íslands- og mótsmet og bætti Íslandsmet Eyglóar Óskar Gústafsdóttur um 1,04sek. 

Önnur úrslit frá sundkeppninni má sjá hér.

 

Ásdís Hjálmsdóttir, spjótkastari, sigraði í spjótkasti kvenna með kasti upp á 58,85 metra í fjórðu umferð. Inga Stasiulionyte frá Svartfjallalandi varð önnur með kasti upp á 46,4 metra og María Rún Gunnlaugsdóttir þriðja en hún kastaði 42,3 metra.

Hafdís Sigurðardóttir stökk 6,50 metra í langstökki og sigraði greinina, en Rebecca Camilleri frá Möltu varð önnur með stökki upp á 6,15 metra og Ljiljana Matovice frá Svartfjallalandi þriðja með stökki upp á 5,60.

Í 5000 metra hlaupi karla sigraði Hlynur Andrésson á tímanum 14:45,94. Marcos Sanza Arranz frá Andorra kom næstur í mark á tímanum 14:48,34 og Pol Mellina frá Lúxemborg varð þriðji á 15:15,52.

Charline Mathias frá Lúxemborg kom fyrst í mark í 800 metra hlaupi kvenna á tímanum 2:08,61. Aníta Hinriksdóttir varð önnur á tímanum 2:09,10 og Natalia Evangelidou frá Kýpur þriðja á 2:09,56.

Í 100 metra hlaupi kom Charlotte Wingfield frá Möltu fyrst í mark á 10,64 sekúndum, en Hafdís Sigurðardóttir varð önnur á 11,87. Dimitra Kyriakdou frá Kýpur varð þriðja á 12,04.

Æsispennadi keppni var í 100m hlaupi karla en einungis munaði tveimur hundraðshlutum á milli annars og þriðja sætis. Panagiotis Iounnaou frá Kýpur varð fyrstur á 10,64, Christos Chatziangelidis frá Kýpur annar á 10,75 og Ari Bragi Kárason þriðji á 10,76.

Óðinn Björn Þorsteinsson varð annar í kúluvarpi með kast upp á 18,10 metra og Stefán Velemir þriðji en hann varpaði kúlunni 17,53 metra. Bob Bertemes frá Luxemborg sigraði með kast upp á 19,11.

Kristinn Þór Kristinsson varð þriðji í 800 metra hlaupi á tímanum 1:58,94. Sigurvegari var Amine Khadiri frá Kýpur sem hljóp á 1:56,72 og annar var Brice Etes frá Mónakó á tímanum 1:57,67

Keppni í stangarstökkinu var færð inn í Kaplakrika þar sem of mikill hliðarvindur var í Laugadalnum. Krister Blær Jónssonvarð  annar í stangarstökki en hann fór yfir 5,05 metra. Sigurvegari var Nikandros Stylianou frá Kýpur sem stökk 5,15 og þriðji varð Sebastien Hoffelt frá Lúxemborg sem stökk yfir 4,80.

Í fimleikum má helst nefna að íslensku stelpurnar sigruðu liðakeppnina örugglega og vörðu þar með titilinn frá því í Lúxemborg 2013. Dominiqua Alma Belányi, sigraði í fjölþraut kvenna. Dominiqua vann einnig árið 2013 og er þar með fyrst kvenna til að verja Smáþjóðaleikatitilinn í greininni. Önnur í fjölþraut varð Thelma Hermannsdóttir. Lið Íslands í karlaflokki lenti í öðru sæti á eftir gríðarsterku og reynslumiklu liði Kýpur. Valgarð Reinhardsson átti í harðri baráttu um verðlaun í fjölþraut karla og fór svo að hann hafnaði í 3. sæti á eftir Kýpverjunum Marios Georgiou og Michalis Krasias.
Ísland er með tvo keppendur í úrslitum á öllum áhöldum á morgun og allir liðsmenn íslenska liðsins tryggðu sér þátttökurétt í úrslitum á minnst einu áhaldi.

Önnur úrslit má sjá hér.

 

Það var spennandi leikur í blaki kvenna þegar að Ísland og Liechtenstein mættust. Höllin var þétt setin af áhorfendum, sem að myndaði skemmtilega stemmningu. Ísland sigraði Lichtenstein 3-0 eftir frábæran leik. Hrinunar enduðu (22:25) (20:25) (21:25). Svartfjallaland vann nokkuð öruggan sigur á San Marínó 3-0. Hrinurnar enduðu (25:17), (21:25) (25:14).

Meira um blakið hér.

 

Keppni í strandblaki fór fram á glænýju og stórglæsilegu strandblakssvæði í Laugardalnum.Þetta er í fyrsta skipti sem landsleikir í strandblaki fara fram hér á landi og því ástæða til að gleðjast þó veðurguðirnir hafi ekki verið með keppendum í dag. Þónokkur vindur var og mjög kalt og á tímabili féllu nokkur snjókorn.

Úrslit dagsins í strandblaki voru þessi:

Karlar A Lichtenstein-Montenegro 2 : 0 (21:18) (21:15)
Karlar B Kýpur-San Marinó 2 : 0 (21:18) (21:11)
Karlar B Andorra-Ísland 2 : 0 (21:6) (21:5)
Konur Luxemborg-Kýpur 0 : 2 (10:21) (18:21)
Konur Malta-Montenegro 0 : 2 (18:21) (20:22)
Konur Lichtenstein-Ísland 1 : 2 (13:21) (21:15) (13:15)

Meira um strandblakið hér.

 

Borðtenniskeppni fór fram í TBR húsinu. Sex lið voru skráð til leiks í kvennaflokki og sjö í karlaflokki. Keppt var í tveimur riðlum í hverjum flokki. Íslenska karlalandsliðið er skipað þeim Magnúsi K. Magnússyni, Davíð Jónssyni og Daða Frey Guðmundssyni. Kvennalandsliðið er skipað þeim Aldísi Rún Lárusdóttur, Guðrúnu G. Björnsdóttur og Kolfinnu Bergþóru Bjarnardóttur. 

Kvennaliðið byrjaði á að spila við sterkt lið Lúxemborgar en liðið er númer 24 á heimslistanum. Leikurinn tapaðist 3-0 en í leiknum spilaði Xian Lian Ni fyrrverandi Evrópumeistari í einliðaleik kvenna. 

Karlaliðið spilaði við Svartfellinga. Daði Freyr Guðmundsson byrjaði að spila við Irfan Cekic, en Irfan vann í Lúxemborg fyrir tveimur árum. Irfan sigraði Daða 3-0 í þeirri viðureign. Eftir hádegi spilaði karlaliðið við Kýpur. Magnús K. Magnússon spilaði fyrst við Marios Yiangou. Þrátt fyrir frábæra frammistöðu og spennandi leik tapaði Magnús 3 - 1. Næst kepptu Davíð Jónsson geng yngri bróður Marios, Yiangos Yiangou. Davíð sigraði leikinn 3 - 1 og jafnaði fyrir Ísland. Eftir mikla baráttu í seinni leikunum hjá Magnúsi gegn Yiangos tapaðist viðureignin og leikurinn tapaðist því samanlagt 3 – 1.

Kvennaliðið keppti næst við Mónakó, sem sigraði 3-0. Kvennaliðið endaði því í neðsta sæti í sínum riðli.

Seinasti leikur dagsins var leikur hjá karlaliðinu við Mónakó. Fyrsti leikurinn hjá þeim tapaðist en í öðrum leik gerði Daði Martin Tiso erfitt fyrir. Leikurinn var tæpur en endaði þó með 3-0 tapi. Magnús og Daði áttu hörku tvíliðaleik en dugði ekki til og leikurinn tapaðist. Leikurinnn endaði 0-3 fyrir Mónakó.

Í liðakeppni karla í A-riðli sigraði Lúxemborg í efsta sæti og San Marínó hafnaði öðru sæti. Í B-riðli var það Mónakó sem endaði í efsta sæti og Svartfjallaland í öðru sæti.

Í liðakeppni kvenna í A-riðli sigraði Lúxemborg og Mónakó í því öðru.
Til undanúrslita í karlaflokki leika því Lúxemborg og Svartfjallaland og San Marino og Monakó.

Í kvennaflokki sigarði Svartfjallaland B riðilinn og Malta var í öðru sæti.

Úrslit í borðtennis eru eftirfarandi:
Konur Luxemborg – Ísland 3-0
Konur Svartfjallaland – Malta 3-2
Karlar Luxemborg – Andorra 3-0
Karlar Mónakó – Kýpur 3-1
Karlar Svartfjallaland – Ísland 3-0

 

Íslenska landsliðið í tennis hafði nóg að gera í dag í einliða- og tvíliðaleikskeppni.

Birkir Gunnarsson keppti við Bradley Callus frá Möltu og vann 6-2, 6-1 eftir mjög sannfærandi leik. Hjördís Rósa Guðmundsdóttir vann Judit Cartana Alana frá Andorra, 6-4, 6-2.  

Anna Soffía Grönholm og Rafn Kumar Bonifacius töpuðu bæði sínum einliðaleikjum. Katrina Sammut, frá Möltu, vann Önnu Soffíu, 6-2, 6-3. Rafn Kumar tapaði fyrir Laurent Recouderc frá Andorra 6-0, 7-6. Recouderc, sem er Franskur, hefur verið einn af 125 bestu atvinnumönnum í heimi og unnið menn á borð við Tómas Berdych (nr.4 í heimi) og Jo-Wilfred Tsonga (nr.15 í heimi).

Í tvíliða kepptu Anna Soffía og Hjördís Rósa við Katrina Sammut og Elaine Genovese frá Möltu. Íslenska stelpurnar töpuðu 6-4, 6-2. Birkir og Rafn Kumar töpuðu á móti Laurent Recouderc og Joan Bautista Poux Gautier frá Andorra 7-5, 6-4.

Á morgun verður fyrsta umferð í tvenndarleik og munu  Hera Björk Brynjarsdóttir og Birkir Gunnarsson spila saman á móti liði frá Luxembourg, Claudine Schaul og Mike Scheidweiler.

Í körfuknattleik má helst nefna að íslenska kvennalandsliðið sigraði sterkt lið frá Möltu 83-73 eftir mjög spennandi leik. Malta var yfir allt undir lok annars leikhluta. Helena Sverrisdóttir spilaði virkilega vel, en hún var með 22 stig, 6 stoðsendingar, 6 stolna bolta og 4 fráköst.

Lúxemborg sigraði Mónakó örugglega 88-55. Lúxemborg hafði örugga forystu strax frá upphafi. Marine Peglion var stigahæst í liði Mónakó með 20 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar en Cathy Schmit átti góðan leik í liði Lúxemborgar með 13 stig, 5 fráköst og 9 stoðsendingar.

Svartfjallaland sigraði Lúxemborg örugglega í karlaflokki 85-58. Nemanja Vranjes frá Mónakó var með 19 stig, tók 6 fráköst og gaf 3 stoðsendingar, en Tom Schumacher frá Lúxemborg var með 15 stig og 4 stoðsendingar.

Meira um körfuknattleikskeppni Íslands og Möltu má sjá hér.

Myndir með frétt

Til baka