Íþróttamannvirki Smáþjóðaleikanna

21.11.2014 14:51

Aðalvettvangur Smáþjóðaleikanna 2015 er Laugardalurinn, en átta af ellefu íþróttagreinum munu fara fram í íþróttamannvirkjum í Laugardalnum. Þrjár íþróttagreinar munu fara fram utan Laugardalsins, en það eru skotfimikeppni, golfkeppni og tenniskeppni. 

Keppni í skotfimi mun fara fram á tveimur stöðum, í Íþróttahúsi ÍFR í Hátúni og á skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi. 

Íþróttahús ÍFR í Hátúni var tekið í notkun þann 1. september árið 1992. Íþróttahúsið er 1.250 fermetrar og er aðal íþróttasalur 18 x 32 metrar, auk þess er minni salur fyrir lyftinga og þrekþjálfun. Margvísleg íþróttastarfsemi fatlaðra fer fram í húsinu. Gólf íþróttasalarins er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, en við lagningu þess voru lögð sérstök lög sem eiga að draga úr meiðslum við æfingar og keppni. ÍFR er eina félag sinnar tegundar á Norðurlöndum sem ræður yfir eigin íþróttahúsi.

Nýtt útiskotsvæði var opnað á Álfsnesi á árinu 2007. Með opnun svæðisins var lagður grunnur að miðstöð fyrir alla þá sem stunda skotíþróttir og skotfimi hverskonar. Svæðið er hannað sem íþróttasvæði fyrst og fremst, en einnig er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir skotveiðimenn til æfinga og ekki síst aðstaða fyrir þá sem stunda skotfimi sem tómstundasport. Alls fjórir Skeetvellir ásamt Trap og Sportingvöllum eru á svæðinu. Riffilvöllur félagsins er einn sinnar tegundar á landinu, en nokkrar nýjungar eru á honum, m.a. í skotskýli og á skotbana, með tilliti til öryggis og aðstöðu fyrir skotmenn. Riffilvöllurinn er einnig hannaður með það fyrir augum að Íslendingar geti haldið erlend mót í flestum riffil- og skammbyssugreinum. Lengsta færi á riffilvellinum er 300 metrar. Skotsvæðið er löglegt fyrir alþjóðamótahald og er stefnt að því að haldin verði alþjóðaskotmót á svæðinu, þar með verður mótahald með erlendum keppendum meira áberandi í framtíðinni en hingað til á völlum félagsins. 

Keppni í golfi mun fara fram á Korpuvelli á Korpúlfsstöðum. Gerð núverandi vallar að Korpúlfsstöðum hófst árið 1993. Áður var þar um tíma tólf holu völlur. Átján holu völlur var vígður á landsmóti árið 1997. Þann 16. júní 2013 var völlurinn formlega vígður sem 27 holu völlur. Völlurinn skiptist í þrjá níu holu hluta sem hafa fengið nöfnin Áin, Landið og Sjórinn. Korpuvöllur þykir einn af bestu völlum landsins í dag.  Völlurinn liggur meðfram fallegri strandlengju borgarinnar og þar er falleg fjallasýn. Fyrri níu holurnar liggja í kringum Korpu og hinar síðari í kringum Staðahverfi niður að sjó og þaðan upp að Korpúlfsstöðum. Mikið hefur verið gróðursett af trjám umhverfis völlinn og ásýnd hans á því eftir að breytast með árunum. 

Keppni í tennis mun fara fram í Tennishöllinni í Kópavogi. Tennishöllin var opnuð þann 20. maí 2007. Tennishöllin er miðstöð tennis á Íslandi. Inni eru þrír tennisvellir, en utandyra eru þrír útitennisvellir. Í Tennishöllinni æfa sex tennisfélög. Tennisfélag Kópavogs, Tennisdeild Fjölnis, Tennisklúbbur Víkings, Tennisfélag Garðabæjar, Tennisdeild Þróttar og Tennisdeild BH.

Hægt er að lesa sér meira til um íþróttagreinarnar sem keppt er í og staðsetningar hér

Myndir með frétt

Til baka