Ísland vann öll gullin í kvennaflokki

03.06.2015 21:26

Íslensku fimleikastelpurnar héldu uppteknum hætti í síðari hlutanum í úrslitum á einstökum áhöldum í dag og unnu þau gull sem eftir voru í pottinum. Keppni í fimleikum er þar með lokið á Smáþjóðaleikunum í ár. Norma Róbertsdóttir vann sitt annað gull í dag þegar hún vann örugglega á jafnvægisslá með 12.900 stig, 0.650 stigum ofar en Milla Fabre frá Mónakó sem varð önnur. Thelma Hermannsdóttir datt hinsvegar á slánni og hafnaði í 6. sæti. Thelma lét þó fallið á slánni ekki hafa áhrif á sig þegar kom að úrslitum á gólfi. Frammistaða hennar þar var frábær og niðurstaðan 13.300 stig og síðustu gullverðlaunin hennar. Sigríður Bergþórsdóttir varð önnur með 12.900 stig og Claire Azzopardi frá Möltu þriðja.
 
Karlaliðinu gekk betur í seinni hlutanum og unnu Valgarður Reinhardson og Eyþór Örn Baldursson báðir verðlaun á stökki, þar sem Valgarð varð annar og Eyþór þriðji. Þar stóð Marious Georgiou frá Kýpur uppi sem sigurvegari. Á tvíslá varð Valgarð einnig annar á eftir Georgiou, en Ólafur Gunnarsson varð sjötti. Á lokaáhaldinu svifrá var við ofurefli að etja. Hinn títtnefndi Georgiou var með lang erfiðustu æfingarnar og skilaði þeim vel. Þrátt fyrir góða frammistöðu frá Ólafi Gunnarssyni þá dugði það ekki til og Ólafur endaði í öðru sæti með 12.950 stig, 1.300 stigum á eftir Kýpverjanum sem vann þar með sín fimmtu gullverðlaun á leikunum.

Æfingar Thelmu á gólfi má sjá hér á YouTube.


 

Til baka