Fimleikameistarinn Dominiqua í viðtali

10.06.2014 11:36

Dominiqua Alma Belányi - Áhaldafimleikar

         Fæðingardagur: 18/10/1992         Hæð: 153         Aldur: 21


Helstu afrek ferilsins

Ég hef verið í íslenska kvennalandsliðinu frá 2008. Í gegnum árin hef ég unnið til fjölda verðlauna bæði á Íslandi og erlendis og keppt á alþjóðlegum mótum, Heimsmeistaramótum, Evrópumótum og fleiri stórmótum um allan heim.

 

  • Margfaldur Íslandsmeistari á tvíslá.
  • Íslandsmeistari 2010 í gólfæfingum.
  • Íþróttamaður Gróttu 2010 og 2011.
  • Fimleikakona ársins 2013.
  • Afrek ársins 2013 valið af FSÍ.
  • Gull í fjölþraut, tvíslá, gólfi og liðakeppni og brons á slá á Smáþjóðaleikum 2013.
  • Silfur í liðakeppni á Smáþjóðaleikum 2009.
  • 1., 2. og 3. sæti á ýmsum alþjóðlegum mótum, t.d. í Mílanó, Hollandi og Ungverjalandi.
  • Góður árangur á Norðurlandamótum, m.a. 2. og 3. sæti.
  • Góður árangur á Evrópumótum og Norður-Evrópumótum, m.a. 9. sæti í fjölþraut, 5. sæti á tvíslá og golfi og 3. sæti í liðakeppni.
  • Góður árangur á Heimsmeistaramótum, m.a. hæsti íslenski keppandinn á tvíslá og slá.

 

Upphaf íþróttaferilsins:

Ég byrjaði að æfa fimleika 6 ára gömul í Vestmannaeyjum, þar sem mamma mín vann sem fimleikakennari. Stuttu eftir það flutti fjölskyldan til Reykjavíkur og ég byrjaði að æfa hjá Gróttu, þar æfði ég í 16 ár. Nýlega hóf ég æfingar hjá Fimleikadeild Ármanns í Laugardalnum. Þar að auki hef ég æft skauta og badminton í styttri tíma, en fann mig svo endanlega í fimleikum um 13-14 ára aldur þegar að ég fór að vinna stærri verðlaun og sá að það gætu verið möguleikar fyrir mig á stórmótum í framtíðinni.

Markmið:

Helsta markmið mitt er að hafa raunsæ markmið og drauma sem ég get unnið að. Að keppa á Heims- og Evrópumeistaramótum. Að vinna til verðlauna á íslenskum viðburðum, Norðulandamótum, World Cups og Grand Prix mótum, Norður-Evrópumótum og alþjóðlegum mótum. Að komast í fjölþrautarúrslit á Evrópumóti.Að vinna Smáþjóðaleikana 2015 í fjölþraut og vera þá fyrst til að vinna tvo leika í röð, því ég vann 2013. Ég sleit allt í hnénu í fyrra sumar og því yrði sigurinn mikill persónulegur sigur.


Önnur áhugamál:

Helstu áhugamál mín eru að ferðast um heiminn, æfa og keppa fyrir Íslands hönd.


Uppáhalds íþróttaminningin mín:

Ein af uppáhalds minningunum mínum eru meðal annars Smáþjóðaleikarnir í Lúxemborg 2013 þegar ég vann fjórðu gull medalíuna mína og ég stóð á pallinum að hlusta á íslenska þjóðsönginn. Ég leit aftur fyrir mig og þá voru allir liðsfélagar mínir búnir að mynda svona keðju og voru að syngja með. Mjög skemmtilegt og minnisstætt augnablik.

Önnur minning sem er mér mjög kær er þegar ég keppti á fyrsta Heimsmeistaramótinu mínu í Rotterdam 2010. Þegar ég labbaði inn í keppnishöllina tilbúin til að keppa þá sá ég foreldra mína í stúkunni með risa plakat þar sem allar stelpurnar úr Gróttu voru búnar að skrifa kveðju á því ég átti afmæli þann dag. Það kom ótrúlega skemmtilega á óvart.
Ári seinna keppti ég á Heimsmeistaramótinu í Tokyo, sem var eitt skemmtilegasta mót sem ég hef keppt á og ferðin var æðisleg og mjög minnistæð.
Háskólaleikarnir í Kazan í Rússlandi 2013 standa líka upp úr af mörgum ástæðum. Þetta voru fyrstu leikarnir af þessari stærð sem ég hafði farið á, þorpið var ótrúlega stórt og aðstæðurnar ótrúlega flottar. Bestu fimleikamenn heims voru að keppa á leikunum en það var einnig á þessu móti sem ég meiddist mjög alvarlega á hnénu. 

Uppáhalds íþróttaminningin: 

Ein af uppáhalds minningum mínum er frá Ólympíuleikunum í London 2012 þegar ég fór út að horfa á leikana, og þá stendur fimleikakeppnin sérstaklega upp úr. Annars tengjast uppáhalds íþróttaminningar mínar öllum þeim verðlaunum sem ég hef unnið, sama hversu stór eða smá þau eru. Hver verðlaun hafa sögu á bakvið sig sem lýsa keppninni, undirbúningnum, mótinu, andrúmsloftinu, aðstæðunum og öllu.


Myndir með frétt

Til baka