Hrafnhildur bætti Íslandsmetið um 6,5 sekúndur

05.06.2015 20:06

Hrafnhildur Lúthersdóttir kom fyrst í mark í 400 metra fjórsundi kvenna í dag og stórbætti Íslandsmetið um 6,54 sekúndur. Alls voru fjögur mótsmet sett í sundlauginni í dag.

Hrafnhildur synti á 4:53,24 mín og bætti bæði Íslands- og mótsmet Jóhönnu Gerðu Gústafsdóttur sem var 4:54,57. Jóhanna Gerða varð önnur í sundinu í dag og bætti sinn árangur um rúma sekúndu, synti á 4:53,56. Julia Hassler frá Liechtenstein varð þriðja á 5:02,37 sek.

Julia tók sig hins vegar til og vann 800 metra skriðsund kvenna á 8:42,06. Þar með bætti hún mótsmetið, sem hún átti sjálf, um rúmar þrjár sekúndur.  Inga Elín Cryer varð þriðja í sundinu á 9:03,66.

Sveit Íslands í 4x100 metra skriðsundi kvenna bætti Íslandsmetið um 12/1000 úr sekúndu og syntu á 3:47,27. Um leið bættu þær mótsmetið um 2,5 sekúndur.

Bryndís Rún Hansen fór mikinn á fyrsta spretti og synti hann á 55,98 sekúndum og varð þar með önnur íslenska konan sem syndir á undir 56 sekúndum. Aðrar í sveitinni voru Eygló Ósk Gústafsdóttir, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir.

Í 400 metra fjórsundi karla sigraði Raphael Stracctiotti frá Lúxemborg á nýju mótsmeti, 4:24,02 og bætti mótsmet Antons Sveins McKee um rúmar þrjár sekúndur.

Síðasta mótsmet dagsins átti sveit Lúxemborgar í 4x100 metra skriðsundi karla. Sveitin synti á 3:24,18 mín en gamla metið var 3:24,75.

Keppni í sundi er þar með lokið og óhætt er að segja að íslenska liðinu hafi vegnað vel. Alls hafa unnist 10 gullverðlaun, 13 silfurverðlaun og 11 bronsverðlaun, samtals 34 verðlaun.

Til baka