Fimm íslensk gull á frjálsíþróttavellinum

06.06.2015 18:55
Íslensku frjálsíþróttakeppendurnir unnu fimm gullverðlaun á síðasta degi Smáþjóðaleikanna í dag. Boðhlaupssveitirnar unnu þrjú af fjórum hlaupum auk þess sem Hafdís Sigurðardóttir vann þrístökk og Guðmundur Sverrisson spjótkast.

Dagurinn endaði sannarlega vel á Laugardalsvelli þar sem Íslendingar unnu síðustu þrjár greinarnar.

Kýpverjar byrjuðu á að vinna 4x100 metra boðhlaup karla á 41,91 sek en íslenska sveitin varð önnur á 41,01.

Í kjölfarið unnu Íslendingar 4x100 m boðhlaup kvenna (46,62), 4x400 metra boðhlaup karla (3:17,06) og loks 4x400 metra boðhlaup kvenna (3:44,31) en í öll skiptin urðu kýpversku sveitirnar í öðru sæti.

Hafdís Sigurðardóttir sigraði í þrístökki kvenna með stökki upp á 12,49 metra og varð önnur í 200 metra hlaupi kvenna á tímanum 24,22. Charlotte Wingfield svarð þar á undan henni, líkt og í 100 metra hlaupinu á 24,19. Hrafnhildur Eir Hermóðsdóttir varð þriðja á 24,35.

Guðmundur Sverrisson sigraði í spjótkasti karla með kasti upp á 74,38 metra. Antoine Wagner frá Lúxemborg varð annar (70,20) og Örn Davíðsson þriðji (68,15).

Í 10 km hlaupi karla sigraði Marcos Sanza Arranz frá Andorra á 30:59,42 en Kári Steinn Karlsson varð annar (31:32,147) og Arnar Pétursson þriðji (32:42,38).

Af öðrum árangri Íslendinga má nefna silfurverðlaun Þorsteins Ingvarssonar í þrístökki (14,09 metrar) og bronsverðlaun Irmu Gunnarsdóttur í kúluvarpi (12,21 metri).

Heildarúrslit frjálsíþróttakeppninnar má sjá með að smella hér.
 
Til baka