Ísland fagnaði gullinu í strandblaki

06.06.2015 14:27

Þær Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir fögnuðu gulli í strandblaki kvenna eftir 2-0 sigur á Mónakó. Íslenska liðið spilaði frábærlega í annarri hrinu og innbyrti sanngjarnan sigur.

Ísland var með pálmann í höndunum eftir að Mónakó tapaði fyrir Liechtenstein í gær. Mónakó hefði hins vegar getað stolið gullinu með sigri.

Fyrri hrinan var jöfn en þær íslensku unnu 21-19. Eftir að jafnt hafði verið á fyrstu tölum sýndu þær íslensku styrk sinn og nánast gerðu út um leikinn með því að komast í 17-8.

Það var loks í stöðunni 20-9 og íslenska liðið sá sigurstigið í hyllingum að mónakóska liðið tók við sér og fór að spila vörn. Það skilaði þeim fjórum stigum í röð en þær sendu loks uppgjöf aftur fyrir völlinn og íslenska liðið fagnaði sigri 21-13.

Þetta er í annað sinn sem Ísland vinnur til verðlauna í strandblaki á Smáþjóðaleikunum, en liðið vann brons árið 2007. Þá sendi Ísland í fyrsta sinn lið til leiks í strandblaki.

Ósigurinn var mónakóska liðinu dýrkeyptur því það hafnaði í þriðja sæti. Liechtenstein vann silfurverðlaun þrátt fyrir að tapa 1-2 fyrir Kýpur í dag (19-21, 21-17, 15-12).

Malta náði fimmta sætinu eftir 2-1 sigur á Lúxemborg (21-18, 13-21, 16-14).



Andorra fagnaði sigri í strandblakskeppni karla eftir oddalotu gegn Liechtenstein í úrslitaleik (17-21, 22-20, 15-7).


Í strandblakskeppni karla hafði Kýpur betur gegn Lúxemborg 2-0 í leik um bronsið (21-15, 21-13).

Til baka