Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleika 2015
Það er eldgos á Íslandi. Í eldgosinu má sjá hvar lítill gos-dropi fæðist. Hann opnar augun og á sama tíma þeytist hann upp úr gosinu og upp í loft. Gosdropinn svífur í loftinu og lendir síðan á jökli. Á jöklinum fær hann ís á halann sinn. Hann skoppar og þeytist aftur upp í loft og áfram yfir hraun og mosa þar sem hann fær mosafeldinn sinn. Hann lendir að lokum á stuðlabergi þar sem hann fær stuðlabergsskóna sína. Litli náttúrukrafturinn er orðinn að lukkudýri Smáþjóðaleikanna á Íslandi 2015.
Lukkudýr Smáþjóðaleika 2015 ber sterk einkenni íslenskrar náttúru og þann náttúrulega kraft sem einkennir land og þjóð. Við hönnun á lukkudýrinu var merki leikanna haft að leiðarljósi, en merkið endurspeglar náttúru íslands í takt við umhverfisvæna stefnu leikanna. Lukkudýrið er mjög litríkt. Hárið er eldur úr eldgosi, höfuðið er sólin sjálf, búkurinn er úr mosa, halinn er þakin ísmolum úr jökli, fótleggirnir eru úr vatni og loks stendur lukkudýrið vel á fótum úr stuðlabergi. Lukkudýrið er einnig lipurt og sterkt.
Lukkudýrinu var gefið nafnið Blossi þann 21. febrúar þegar að 100 dagar voru til Smáþjóðaleika.